„Viðburður sem enginn má missa af“

Jón Viðar Jónsson

„Hér eru engir amatörar á ferð eða unglingar að spreyta sig, nei þau eru öll flínkir tónlistarmenn og söngvarar og ekki nóg með það; þau eru líka góðir leikarar og kunna að þræða þennan gullna meðalveg sem reynist svo oft vandfundinn í óperunni: að láta leikinn og túlkunina líkt og spretta fram úr söngnum þannig að hvorugt yfirtekur hitt.“

Síðasta helgi var mikil óperuhelgi hjá undirrituðum og raunar fleirum. Á laugardag var frumsýning á Madömu Butterfly í Eldborg og á sunnudagskvöld var svo haldið á vit Don Pasquales Donizettis sem söng/leikhópurinn Óður setur upp í Þjóðleikhúskjallaranum. Ég skrifa væntanlega eitthvað um Butterfly í næsta hefti Mannlífs; læt hér duga að segja að mér fannst uppfærslan nokkuð gloppótt og helst lifna í glæsilegri túlkun suðurkóreönsku söngkonunnar Hye Lou Yee í titilhlutverkinu – sem gerir sýninguna sannarlega heimsóknarinnar virði. En hér ætla ég að segja fáein orð um Óð og sýningar hans, Ástardrykkinn í fyrra og nú Don Pasquale.

Ég ætla að spara mér hér nákvæmar nafnaupptalningar því að þið getið fundið allar upplýsingar um hópinn á FB-síðu hans, Sviðslistahópurinn Óður. Don Pasquale og Ástardrykkurinn verða í útfærslu þeirra eins konar leikrænar tilraunir með óperuformið, lagaðar eftir aðstæðum á sviði Þjóðleikhússkjallarans – og ég ítreka fyrra hrós mitt til þjóðleikhússtjóra fyrir að veita þeim þessa aðstöðu, því að hér eru engir amatörar á ferð eða unglingar að spreyta sig, nei þau eru öll flínkir tónlistarmenn og söngvarar og ekki nóg með það; þau eru líka góðir leikarar og kunna að þræða þennan gullna meðalveg sem reynist svo oft vandfundinn í óperunni: að láta leikinn og túlkunina líkt og spretta fram úr söngnum þannig að hvorugt yfirtekur hitt – það er ekki alveg auðvelt að koma orðum að þessu, en vonandi grynnið þið eitthvað í því hvað ég er að fara. Báðar uppfærslurnar byggja á sömu aðferðinni: tónlistin er umskrifuð fyrir píanó og leikin (snilldarlega af Sigurði Helga), en svo er sögunni þjappað saman og hún einfölduð með hjálp sögumannstexta (í rauninni ekki ósvipað því sem þau Karl Ágúst og Ágústa Skúla gera í sínum leik upp úr As you like it í Kassanum) sem líka vex á eðlilegan hátt út úr leiknum.

Og svo það sem ekki er minnst um vert: textarnir eru fluttir á íslensku, sem söngkonan í hópnum, Sólveig Sigurðardóttir, hefur snúið á íslensku af mikilli list; hún er sannarlega “mesti forkur að ríma”, eins og eitt af okkar stóru ljóðskáldum sagði um sjálfan sig í frægu kvæði. Sólveig og Þórhallur Auður Helgason syngja elskendahlutverkin og gera það brilljant; Þórhallur hefur með frammistöðu sinni í þessum tveimur sýningum (án þess að á nokkurn hátt sé hallað á hina) tekið sér sess sem ekki bara einn af efnilegustu tenórum okkar, heldur líka með þeim bestu (já ég veit að ég tek upp í mig, en ef þið trúið mér ekki – og auðvitað enn frekar ef þið trúið mér – drífið ykkur þá að ná í miða og dæmið sjálf). Ragnar Pétur Jóhannsson, sem ásamt Sólveigu og Þórhalli mynda kjarna hópsins, syngur Don Pasquale með sinni djúpu og blæmildu bassaraust; hann gerir það prýðilega, en hefði þó vel mátt gera Doninn kómískari; mér fannst Ragnar njóta sín mun betur í Ástardrykknum þar sem hann var eins konar “konferencier” og sýndi mikil tilþrif. Og baritónninn Áslákur Ingvarsson (sérlega vel ættaður úr leikhúsinu) bjó brellumakarann Malatesta til með góðum húmor og fínni tækni.

Að endingu: Hér er á ferð viðburður sem enginn má missa af, sá sem á annað borð ann tónlist og leiklist. Og það breytir engu hvort hann er að mæta í fyrsta skipti á óperu eða hefur átt þess kost að njóta óperulistarinnar á hinum stóru sviðum heimsins með stærstu söngvurunum. Þegar listin nær virkilega að hrífa okkur með galdri sínum og töfrum, þá breytumst við alltaf með nokkrum hætti í börn. Og þá skiptir engu hvort þeir töfrar eru vaktir af frægum söngstjörnum í glæsilegum sviðsbúnaði, af risastórri hljómsveit með voldugum kórum, eða með öðrum og látlausari meðulum. Peter sálugi Brook og Ingmar heitinn Bergman töluðu báðir ítrekað um mikilvægi einfaldleikans fyrir sviðslistirnar og ég er handviss um (þó ég hafi hvorugan hitt þá finnst mér ég hafa þekkt þá báða) að einmitt þeir hefðu kunnað að meta það sem hér er að fæðast.