„Búktalandi óperusöngvari og farsakennd atburðarás“

Jónas Sen, Fréttablaðið

„Nálægðin á laugardagskvöldið gerði að verkum að söngur allra var auðskiljanlegur, og maður skellti upp úr hvað eftir annað. Útkoman var hreint út sagt ógleymanleg skemmtun.“

Síðast þegar ég vissi var hraðmæltasti maður heims John Moschitta yngri. Á YouTube má sjá hann og heyra fara með texta úr heilu lagi eftir Michael Jackson á 20 sekúndum.

Hann er þó ekki hraðmæltari en tveir söngvarar úr uppfærslu á Don Pasquale eftir Donizetti sem sviðslistahópurinn Óður frumsýndi í Þjóðleikhúskjallaranum á laugardagskvöldið. Söngvararnir Áslákur Ingvarsson og Ragnar Pétur Jóhannsson sungu dúett, og í snilldarlegri þýðingu Sólveigar Sigurðardóttur voru orðin svo mörg að það þurfti nánast að skjóta þeim út úr vélbyssu. Það gerðu söngvararnir með glæsibrag, og samt ótrúlega skýrt. Áhorfendur veltust um af hlátri.

Don Pasquale er gamanópera og fjallar um karlfausk sem ætlar að gera frænda sinn arflausan vegna þess að honum líkar ekki við unnustu hans. Læknir karlsins, sem er með frændanum í liði, setur þá af stað farsakennda atburðarás sem stigmagnast upp í ærandi hápunkt. Búktal kemur þar mjög við sögu.

Nú kann einhver að spyrja hvernig hægt sé að koma upp heilli óperu með hljómsveit í þröngu rými Þjóðleikhúskjallarans. Svarið er að hljómsveitin var aðeins lítill píanógarmur, ekki einu sinni flygill. Sigurður Helgi lék á píanóið, og var jafnframt tónlistarstjóri. Hann hélt vel um alla þræði. Píanóleikurinn var í senn tær og glitrandi, stórbrotinn og ástríðuþrunginn, allt eftir því hvað við átti hverju sinni. Prýðilegt flæði var jafnframt í söngnum.

Auðvitað er smágert píanó ekki jafnoki stórrar sinfóníuhljómsveitar, en það gerði ekkert til. Venjuleg óperuuppfærsla getur ekki boðið upp á aðra eins nálægð og maður upplifði hér. Það var eins og að vera þátttakandi í sögunni sem var svo sannarlega ómetanlegt.

Eins og áður sagði þýddi Sólveig Sigurðardóttir óperuna yfir á íslensku. Textinn var drepfyndinn og búktalið var stórkostlegt. Leikur allra undir stjórn Tómasar Helga Baldurssonar var sannfærandi, ofleikurinn á réttu stöðunum sem hæfði grínóperu var afar skemmtilegur án þess að fara yfir strikið.

Söngurinn var líka heilt yfir góður. Ragnar Pétur Jóhannsson var í hlutverki karlfausksins Don Pasquale, söngur hans var þéttur og áreynslulaus. Áslákur Ingvarsson var einnig framúrskarandi, mjög öruggur og með blæbrigðaríka raddbeitingu. Þórhallur Auður Helgason var frændinn forsmáði og söng oftast vel, átti marga flotta spretti. Og Sólveig Sigurðardóttir, þýðandinn sjálfur, var dálítið óörugg fyrst, en svo héldu henni engin bönd.

Á heimasíðu Þjóðleikhússins má lesa að sviðslistahópurinn Óður neitar að geyma óperur í glerkössum. Hann vill nálægð við áhorfendur og að þeir skilji um hvað er verið að syngja án þess að píra augun á textavél einhvers staðar uppi í rjáfri. Nálægðin á laugardagskvöldið gerði að verkum að söngur allra var auðskiljanlegur, og maður skellti upp úr hvað eftir annað. Útkoman var hreint út sagt ógleymanleg skemmtun.

Niðurstaða: Drepfyndin ópera.