Sviðslistahópurinn Óður frumsýndi í gærkvöldi í samstarfi við Þjóðleikhúsið gamanóperuna Don Pasquale eftir Gaetano Donizetti í Þjóðleikhúskjallaranum og rifjaði upp fyrir mér hve ljúft var á Ástardrykknum í hittifyrra á sama stað. Það voru líka að töluverðu leyti sömu kraftar sem dilluðu áhorfendum í gærkvöldi, sama tónskáld, sami hugkvæmi leikstjóri (Tómas Helgi Baldursson), sama fína „hljómsveitin“ (Sigurður Helgi Oddsson) og þrír af fjórum söngvurum þeir sömu. Sópraninn Sólveig Sigurðardóttir þýddi sjálf líbrettó Giovannis Ruffini yfir á lipra, orðhaga og fyndna nútímaíslensku sem naut sín vel í munni söngvaranna.
Í þessari óperu er enn verið að hrekkja gamlan mann. Herra Pasquale (Ragnar Pétur Jóhannsson, bassi) er vellauðugur en finnst hann samt ekki eiga nóg, eins og títt er um auðugt fólk. Hann vill að frændi hans og einkaerfingi, Ernesto (Þórhallur Auður Helgason, tenór) kvænist ríkri stúlku. En Ernesto ann Norinu (Sólveig Sigurðardóttir, sópran) hugástum og þverneitar að giftast nokkurri annarri. Þá rekur sá gamli hann úr sínum húsum og Ernesto ákveður að yfirgefa heimaborgina og Norinu vegna þess að nú hefur hann ekkert að bjóða henni. Á sama tíma er besti vinur hans, doktor Malatesta (Áslákur Ingvarsson, barítón), læknir Pasquales, með bráðsnjalla ráðagerð á prjónunum til að bjarga málum. Hann vill að Norina leiki systur hans sem hefur alist upp í klaustri og þau lokki gamla manninn til að kvænast henni, síðan geri hún sitt til að koma sér úr náðum „eiginmannsins“. Þetta væri nú allt gott og blessað nema að einu leyti: Malatesta gleymir að segja Ernesto frá ráðabrugginu og hann heldur auðvitað að brúðkaup Norinu og Pasquales sé i alvöru! Verður greitt úr misskilningnum? Það get ég að sjálfsögðu ekki upplýst hér.
Þau eru öll sem fyrr hörkugóðir söngvarar og leikarar og ekki er sá nýi sístur. Áslákur er ekki aðeins hrífandi bjartur barítón sem getur sungið minnst hundrað atkvæði á mínútu ef því er að skipta, hann er líka heillandi á sviði og hlutverk bragðarefsins með silfurtunguna hentaði honum fullkomlega. Það var yndi að horfa á þegar Malatesta kenndi hinni veraldarvönu Norinu að vera hrædd og feimin klausturmær og atriðið þegar þeir herra Pasquale leggja á ráðin um að afhjúpa ótryggð Norinu var svo myljandi fyndið að ég fékk harðsperrur af hlátri.
Sólveig er skínandi góður sópran, leikur sér að dillandi trillunum hans Donizettis en getur líka rifist og skammast á öllum tónskalanum. Þetta er ákjósanlegasta hlutverk fyrir unga söngkonu og hún naut þess út i æsar að túlka breitt tilfinningasviðið. Hlutverk Ernestos er einhæfara, hann á svo ósköp bágt, veslingurinn, en Þórhallur skilaði honum vel. Meira reyndi á Ragnar Pétur bæði i söng og leik og hann brást ekki frekar en þegar hann bruggaði ástardrykkinn, lifði sig einlæglega inn í vesöld gamals manns sem finnst hann hafa verið blekktur og vill hefna sín.
Tónlistin hefur ekkert látið á sjá á þeim 180 árum sem hafa liðið síðan hún var frumflutt í París, hún er ýmist svellandi fjörug, ljóðræn og blíð, hæðin eða reiðileg. Allt þetta túlkaði Sigurður Helgi af þrótti á píanóið. Aríurnar eru margar undurfallegar, einkum þær sem Norina og Ernesto syngja, ýmist sér eða saman. Stóri kosturinn við þessa uppsetningu og þá fyrri er íslenski textinn sem flytur efnið alveg upp í fangið á manni. Það er sérstaklega brýnt í gamanóperum þar sem maður þarf helst að vita nákvæmlega hvað gengur á. Ekki er verra þegar þýðingin er eins vel ort og skemmtileg og hér.
Sviðið var eins einfalt og verða má, einn stóll á miðjum palli, en Tómas Helgi lét sér pallinn ekki nægja heldur var sungið um allan salinn. Hann bætti líka inn orðalausum (eða ósungnum) atriðum sem svínvirkuðu. Dögg Patricia Gunnarsdóttir sá um vel viðeigandi búninga á Norinu eftir því í hvaða „hlutverki“ hún var, en þénug lýsingin var á vegum Jóhanns Friðriks Ágústssonar.
Miðað við móttökur gesta í Kjallaranum í gærkvöldi þarf ekki að efast um aðsókn að Don Pasquale. Það er ánægjulegt fyrir nýjan umsjónarmann Kjallarans, Ólafíu Hrönn Jónsdóttur, að hefja starfið á svona fínni og eftirminnilegri sýningu.