„Það sem mig langaði’ að segja en ekki sagði, segi ég núna, áður en það er um seinan.“

Silja Aðalsteinsdóttir

„Það er lofsvert af Óði að dekra við aðdáendur sína með því að leggja vinnu í vandaða þýðingu og hefur orðið öðrum fyrirmynd.“

Sviðslistahópurinn Óður frumsýndi í gærkvöldi á litla sviði Borgarleikhússins óperuna La bohème eftir Giacomo Puccini. Að venju hafa Sólveig Sigurðardóttir og Þórhallur Auður Helgason þýtt líbrettó Luigis Illica og Giuseppe Giacosa á þjála, fyndna og fallega íslensku. Leikstjóri er sem fyrr Tómas Helgi Baldursson og tónlistarstjóri er sem fyrr Sævar Helgi Jóhannsson en nú hefur hann yfirráð yfir hljómsveit, ekki aðeins píanói. Helga I. Stefánsdóttir sá um einfalda en hugkvæma leikmynd og búninga; Jóhann Friðrik Ágústsson hannaði lýsingu en Bjartey Elín Hauksdóttir sá um sviðshreyfingar. Þau nýta sér húsið vel, leika á gólfi og efri hæðum auk þess sem hleri í gólfi gefur í skyn neðri hæðir.

 

Í risinu á gömlum leiguhjalli í Parísarborg býr á fyrri hluta 19. aldar hópur ungs fólks, listamanna, námsmanna og annarra blankra einstaklinga. Það er aðfangadagur, risið er ískalt og skáldið Rodolfo (Þórhallur Auður Helgason) og málarinn Marcello (Áslákur Ingvarsson) eiga bágt með að vinna fyrir kulda þótt kappklæddir séu. Ofurlítinn yl fá þeir í sig með því að brenna leikritahandritið hans Rodolfos en það dugir skammt. Vinirnir Colline (Ragnar Pétur Jóhannsson) og Schaunard (Gunnlaugur Bjarnason) koma til að tæla þá út á krá með sér en áður þurfa þeir að villa um fyrir leigusalanum Benoît (Níels Thibaud Girerd) til að sleppa við að borga leiguna – alla vega í bili. Þegar allir eru farnir nema Rodolfo bankar granni hans, saumakonan Mimi (Sólveig Sigurðardóttir) upp á, það slokknaði óvart á kertinu hennar og hún biður hann um eld. Þau kynna sig og heillast hvort af öðru undir eins, og þá er sviðið tilbúið fyrir eina frægustu óperu-ástarsögu allra tíma.

 

Sagan gerist á nokkrum mánuðum og segir sögu þessara ungmenna og fleiri vina þeirra og kunningja. Þar munar mest um Musettu (Bryndís Guðjónsdóttir), ærslabelginn með gullhjartað sem elskar Marcello þótt hún daðri við aðra karla til að skemmta sér og fá almennilegan mat að borða. Því að það er peningaleysið og hungrið sem fer verst með ástina – og heilsuna – í verkinu.

 

Sagan er alvöru saga en það er samt tónlistin sem hefur haldið uppi vinsældum þessarar óperu í 130 ár. Tónlesið er lagrænt, svipmikið og tjáningarfullt, aríurnar með sínum ógleymanlegu laglínum algerlega töfrandi. Rodolfo fær þá fyrstu og frægustu, hann syngur hana þegar hann grípur hönd Mimi í myrkrinu og finnur hvað henni er kalt. Rödd Þórhalls var ekki orðin alveg nógu heit þegar hann byrjaði en hann söng fljótlega í sig hita og tilfinningu. Svarsöngur Mimiar um sjálfa sig var líka fallegur og tjáningarríkur. Bæði eru þau ágætir leikarar auk þess að vera dásamlegir söngvarar og ástríðuþrungin og átakanleg atriðin milli þeirra voru afar áhrifamikil, ekki síst lokaatriðið sem hefði grætt steinhjarta.

 

Áslákur er flottur söngvari og bjó líka til skýra manngerð úr Marcello, alveg er ég viss um að hann varð frægur málari að lokum! Samband þeirra Musettu bar svip af því að bæði eru sjálfstæðar og meðvitaðar persónur. Bryndís gerði Musettu gersamlega heillandi og söng sjálfslýsingu hennar með hamslausu sjálfshólinu alveg frábærlega. Atriðið á kránni þegar hún losar sig á hávaðasaman hátt við ríka ástmanninn Alcindor (Níels Thibaud) var alveg drepfyndið. Bæði þar og í hlutverki leigusalans var Níels virkilega fínn og þeir Karl Friðrik Hjaltason voru líka alveg skínandi skemmtilegir þjónar, sviðsmenn og útigangsmenn. Gunnlaugur var léttur og kátur í hlutverki tónlistarmannsins Schaunards, söng og lék við hvern sinn fingur, en Ragnar Pétur bjó salinn vel undir sorglegan endinn með túlkun sinni á hjartnæmri aríu heimspekingsins Collines um gamla frakkann sem hann ætlar að veðsetja fyrir lyfjum handa Mimi.

 

Það er sérkennilega fullnægjandi að heyra kunnuglegt verk alveg upp á nýtt af því að það er á tungumáli sem maður skilur. Mér dettur líka í hug að það sé auðveldara fyrir söngvarana að blása ekta tilfinningu í sönginn þegar þeir skilja hvert orð og hverja hugsun og vita að viðtakendur gera það líka. Það er freistandi að taka sem dæmi það sem Mimi segir við Rodolfo á banabeði (og hefur býsna rétt fyrir sér): „Eru þau farin? Ég þóttist sofa’ og þagði því ég vildi aðeins tala við þig einan. Það sem mig langaði’ að segja en ekki sagði, segi ég núna, áður en það er um seinan. Þessi orð máttu innst í hjartað skrifa: Okkar ást mun gegnum dauðann lifa.“

Það er lofsvert af Óði að dekra við aðdáendur sína með því að leggja vinnu í vandaða þýðingu og hefur orðið öðrum fyrirmynd. Njótið þess um hátíðarnar að eyða kvöldstund með svöngu og köldu en lífsglöðu og ástríðufullu ungu fólki í París fyrir tvö hundruð árum!