Rakarinn í Sevilla ★★★★

Magnús Lyngdal Magnússon

„Ég skemmti mér konunglega á Rakaranum í Sevilla í Sjálfstæðissalnum og það gerðu aðrir sýningargestir líka. Sýningin er enn ein rósin í hnappagat Óðs og listamönnum öllum sem að henni komu til sóma.“

Á vondri íslensku myndi ég orða það sem svo að sviðslistahópurinn Óður sé á „rönni“. Hópurinn frumsýndi gamanóperuna Rakarann í Sevilla eftir Rossini á fullveldisdaginn 1. desember. Þetta er fjórða gamanóperan sem hópurinn tekur til sýningar en áður hafði hann sett upp Ástardrykkinn eftir Donizetti (2021), Don Pasquale eftir sama tónskáld (2023) og svo Póst-Jón eftir Adam (2023). Þetta voru allt vel heppnaðar sýningar og sú nýjasta er þar engin undantekning. Mér líkar það líka ákaflega vel þegar ungir söngvarar bíða ekki eftir að fá tækifæri upp í hendurnar heldur skapa þau sjálf.

Rakarinn í Sevilla eftir Gioachino Rossini (1792-1868) er vinsælasta gamanópera allra tíma og sú elsta slíkrar tegundar sem er enn í samfelldum flutningi. Verkið var frumsýnt í Róm árið 1816 en ótrúlegt en satt hlaut það einkar slæmar viðtökur á frumsýningarkvöldinu. Það helgaðist reyndar frekar af hjaðningavígum innan stéttar tónskálda en gæðum óperunnar. Hún sló í gegn þegar á næstu sýningu og hefur allar götur síðan kætt áheyrendur um heim allan.

Sviðslistahópurinn söng, venju samkvæmt, óperuna á íslensku. Þýðingin (og aðlögun textans) var í höndum þeirra Sólveigar Sigurðardóttur og Þórhalls Auðs Helgasonar. Mér fannst þeim takast vel upp. Þannig varð „Ecco ridente in celio“ að „Sólin á himni hallar” og „Dunque io son“ að „Er það ég” svo dæmi séu tekin. Textaframburður var líka almennt skýr og raddir bárust vel.

Rétt eins og í Þjóðleikhúskjallaranum notaði Óður allan Sjálfstæðissalinn í uppfærslunni (svið, tröppur, svalir o.s.frv.). Sönglega séð er salurinn eilítið „þurr” sem þýðir að hann fyrirgefur lítið; það heyrist allt. Almennt fannst mér sýningin ívið betur leikin en sungin. Þannig léku allir feikilega vel en mér fannst söngur Ragnars Péturs Jóhannssonar standa einna helst upp úr, það er að segja sönglega séð.

Leikgerðin var fín sem og leikstjórn Tómasar Helga Baldurssonar. Óperan var nokkuð stytt og einfölduð. Þannig var hlutverk Vasilievskys (Philip Barkhudarov) soðið saman upp úr hlutverki Basilos (sem var sleppt). Sviðshreyfingar voru ferlega skemmtilegar og hvað leikmynd og búninga varðar var mikið gert úr litlu. Loks má nefna að lýsingin var vel útfærð.

Sýningin var „krydduð” með Rakarakvartettinum sem flutti aðallega hljóðfæratónlist verksins, svo sem hluta forleiksins og svo „óveðrið“ í seinni þætti óperunnar. Þetta kom einkar vel út og vakti mikla kátínu meðal áheyrenda.

Ég skemmti mér konunglega á Rakaranum í Sevilla í Sjálfstæðissalnum og það gerðu aðrir sýningargestir líka. Sýningin er enn ein rósin í hnappagat Óðs og listamönnum öllum sem að henni komu til sóma. Það er grasrótin sem heldur uppi óperuflutningi hér á landi og hefur gert allar götur frá því að Íslenska óperan safnaðist til feðra sinna. Ég vona að Óður sé rétt að byrja, enda sýningar hópsins tilhlökkunarefni. Það er enda af nægu að taka í óperubókmenntunum þegar kemur að gamanóperum.