Elisir d’amore, eða Ástardrykkurinn, er ein vinsælasta gamanópera sem skrifuð hefur verið. Þetta klassíska verk var nýverið sett á svið í Þjóðleikhúskjallaranum af sviðslistahópnum Óði. Sýningin var í styttri og einfaldaðri mynd, svo hún passaði betur inn í þær þröngu skorður sem kjallarinn setur.
Óperan segir frá Nemorino, fátækum verkamanni sem er yfir sig ástfanginn af Adínu, sem vill svo til að er ríkur landeigandi og því stétt fyrir ofan greyið Nemorino í bændasamfélagi Ítalíu á 19. öld. Nemorino er túlkaður af tenórnum Þórhalli Auði Helgasyni og Adína af Sólveigu Sigurðardóttur sópran. Þeim til halds og trausts er svo Ragnar Pétur Jóhannsson í hlutverki skottulæknisins Dulcamara og Jón Svavar Jósepsson sem helsti keppinautur Nemorinos, ofurstinn Belcore.
Eins og áður sagði er búið að stytta og einfalda verkið töluvert, það er ekki pláss fyrir stóran kór í Þjóðleikhúskjallaranum og Gianatta vinkona Adínu, hin sópranröddin í verkinu hefur verið skrifuð út. Undirleikurinn er heldur ekki sinfóníuhljómsveit heldur eingöngu Sigurður Helgi Oddsson sem spilar undir á píanó.
Ástardrykkurinn er gamanópera með einfaldan söguþráð. Nemorino sem virðist ekki eiga neinn sjéns í Adínu kaupir töfradrykk af Dulcamara lækni, sem á að gera hann ómótstæðilegan í augum kvenna á innan við sólarhring. Ósvífni skottulæknirinn selur honum drykk sem er í raun ódýrt rauðvín. Nemorino verður ekki ómótstæðilegur heldur drukkinn, en eins og oft gerist þegar menn eru undir áhrifum áfengis þá öðlast hann eilítið meira sjálfstraust. Í fyrstu virðist hann ætla að bíða þolinmóður eftir að drykkurinn byrji að virka. Dulcamara laug því að það yrði að sólarhring liðnum, passlega svo skottulæknirinn yrði kominn í örugga fjarlægð frá þorpinu. En þegar Nemorino fréttir að ofurstinn Belcore sé í þann mund að fara að giftast verður hann að grípa til örþrifaráða og leitar aftur til læknisins í von um að geta fengið kröftugri og hraðvirkari drykk.
Það er óþarfi að rekja söguþráðinn alveg til enda. Ástardrykkurinn fjallar í stuttu máli um sigur einlægrar ástar og það sem á endanum hrífur Adínu er að Nemorino er til í að leggja allt í sölurnar fyrir hana. Þá er með talið hans eigið frelsi, þrátt fyrir að í millitíðinni verði hann að einum ríkasta manni héraðsins.
Verkið er eftir tónskáldið Gaetano Donizetti, sem skrifaði það á tæpum sex vikum árið 1832. Óperan sló svo rækilega í gegn að hún varð mest flutta ópera Ítalíu. Þetta var mjög gjöfull áratugur í lífi Donizetti sem skrifaði ótal verk sem langflest slógu í gegn. Þekking mín á óperusögunni er í besta falli yfirborðskennd en flest ættum við þó að kannast við allavega eitt lag úr verkinu, Una furtiva lagrima. Þórhallur flutti lagið prýðisvel í tröppunum í Þjóðleikhúskjallaranum, við mikinn fögnuð áhorfenda.
Sviðsetningin er ósköp einföld. Búningarnir eru samkvæmt tíðaranda, en þó ekki eins og í Baskahéraði átjándu aldar, þar sem Donizetti staðsetur verkið, heldur meira eins og á Ítalíu nítjándu aldar. Ragnar Pétur ryðst inn í salinn í larfalegum smóking með pípuhatt á höfði í upphafi sýningar,
Hann ávarpar áhorfendur beint og dregur einn þeirra úr sæti sínu til þess að spila á píanó. Það er frá upphafi því ljóst að þetta er galsakennd sýning með mikilli nánd við áhorfendur. Meira eins og að vera inni á reykfylltum bar heldur en í óperuhúsi. Aðrir búningar eru líka frekar einfaldir, til að undirstrika stéttarstöðu Nemorino er hann klæddur eins og þjónn. Adína er í kjól með rauðri slaufu og Belcore í hermannabúning. Það er mikið fjör í kringum Ragnar Pétur og Jón Svavar. Ragnar er mjög fínn í hlutverki
loddarans Dulcamara og stígur oft í hlutverk sögumanns til að tengja atriði í verkinu saman og Jón Svavar er stórskemmtilegur í hlutverki sínu sem herforingi með mikið sjálfsálit.
Þar sem ég er ekki sérfróður um óperur þá ætla ég ekki að leggja ítarlegt mat á útsetninguna eða sönginn, sem þó er auðvitað stórt atriði í uppsetningunni. Það kom mér á óvart hversu góður hljómburðurinn er í Þjóðleikhúskjallaranum þrátt fyrir allt og ég allavega naut tónlistarinnar. Píanóundirleikur Sigurðar Helga virkar djassskotinn og ýtir enn frekar undir frjálslegan barfílinginn.
Salurinn er vel nýttur, áhorfendur umkringja ferkantað sviðið en söngvararnir eru óhræddir við að stíga út fyrir boxið, brjóta fjórða vegginn. Þeir syngja og kallast á í tröppunum og einnig á milli borða þar sem áhorfendur sitja. Á meðan sýningin er í gangi þjóta þjónar Þjóðleikhúskjallarans um með pantanir án þess að trufla sérstaklega, maður gæti vel ímyndað sér að maður væri í brúðkaupsveislu Adínu og Belcore, nú eða á veitingastaðnum þar sem Nemorino virðist eiga að vinna í þessari uppfærslu.
Textinn er á íslensku og það er sópran sýningarinnar, Sólveig Sigurðardóttir, sem endurþýddi. Hún byggir þar að hluta til á þýðingu frænda síns Guðmundar Sigurðssonar frá árinu 1967. Þýðingin hljómar ágætlega og er á auðskildu máli, að þeim köflum undanskildum þegar sem söngvararnir fjórir syngja í sameiningu hver sína línu, en þá verða orðaskil síður greinileg.
Það má velta því upp hversu vel þessi ítalski óperufarsi eldist í nútímanum. Er það sympatískt í dag að Nemorino gangi á eftir konu sem vill ekkert með hann hafa og gangi jafnvel svo langt að kaupa sér ástardrykk sem á að blekkja hana til að hrifningar? Það mætti segja að Belcore sé að einhverju leyti verðugri hetja, því hann tekur því af sæmilegu jafnaðargeði þegar Adína slítur trúlofun þeirra, og tekur nei sem nei. Hér er ég auðvitað bara að gantast því að farsar, hvort sem þeir eru óperufarsar eða annars konar gamanleikir, eru ekki til þess að draga upp móralskar fyrirmyndir heldur einmitt persónur sem á einhvern hátt eru hlægilegar. Einn aðalbrandarinn er hvernig Nemorino verður eftirsóknarverðari í augum Adínu þegar hann hunsar hana. Á meðan hrífast aðrar konur skyndilega af honum, ekki vegna þess að áfengið veiti honum aukið sjálfstraust heldur af því frændi hefur arfleitt hann að miklum auðæfum.
Ástardrykkurinn er enn þá mjög fyndið verk. Mitt ófaglega álit er að söngurinn hafi heppnast mjög vel og í öllu falli má hrósa leikstjóranum Tómas Helga Baldurssyni og aðstoðarleikstjóranum Niels Thibaud Girerd fyrir að ná góðri frammistöðu frá leikurunum. Þeir hafa séð til þess að leikararnir nýttu sér rýmið vel. Óperusöngvarar geta stundum orðið stirðbusalegir í stærri uppfærslum, nánast hluti af sviðsmyndinni frekar en lifandi persónur. Þvert á móti er þessi sýning fjörug og full af lífi, og góð skemmtun líka fyrir fólk sem ekki þekkir vel til óperumenningar.