Í jólahúsi Óðs leynast margar forvitnilegar persónur. Sumar þeirra eru kunnuglegar en aðrar hafa enn ekki verið kynntar til sögunnar. Einhverjar hafa meira að segja aldrei litið dagsins ljós. 

Jóladagatal Óðs er aðeins til í takmörkuðu upplagi og mun ágóði af sölunni leggja grunn að næstu sýningu Óðs.

Um hönnuðinn

Atli Sigursveinsson hefur hannað plaköt fyrir allar sýningar Óðs. Vinnan hefst snemma í mótunarferli sérhverrar uppfærslu með leitandi samtali hönnuðar og Óðs. Hugmyndir Atla leita gjarnan út fyrir það hefðbundna en fyrir plakat sitt fyrir Póst-Jón, sem var skorið út líkt og frímerki, hlaut Atli gullverðlaun í flokki veggspjalda á FÍT verðlaununum 2025. Á sömu hátíð hlaut hann einnig silfur í flokki stakra myndlýsinga fyrir kápuhönnun bókarinnar Álfheimar 4: Gyðjan og tveimur árum fyrr hreppti hann í sama flokki bæði gull fyrir kápuhönnun Álfheimar 2: Risinn, og silfur fyrir plakat bíómyndarinnar Abbabbabb. 

Plakat Atla fyrir La bohème dró innblástur í gamaldags jóladagatöl og í kjölfarið ákvað Óður að ráða hann til að framleiða glænýtt jóladagatal sem skartaði senum úr uppfærslum hópsins, fyrr og jafnvel síðar.

Jóladagatal Óðs er selt í gegnum vef Borgarleikhússins og er hægt að sækja í miðasölu eða veitingasölu Borgarleikhússins.