„Heildstætt og fallegt listaverk“

Trausti Ólafsson

„Textarnir sem Sólveig og Þórhallur Auður leggja söngvurunum í munn eru skínandi vel samdir og áhorfendur skilja hvert orð sem sungið er. [La bohème] bar öll helstu einkenni Óðs, léttleika og sköpunargleði með dálítið alvarlegum undirtóni sem áhorfandinn skynjar allan tímann mitt í allri glaðværðinni.“

















„Búningar og hreyfingar söngvaranna í uppfærslu Óðs eru heildstætt listaverk, stundum svo fallegt að manni finnst maður vera að horfa á verk eftir afbragðs málara. Í stöku atriðum undirstrikaði sviðsetning Tómasar Helga tengsl persónanna og innri átök þeirra með áhrifamiklum hætti. Hið sjónræna sagði að minnsta kosti jafnmikið og tónlistin og orðin.“





























„Ég ætla ekki að útskýra töfrana nánar. Þið þurfið að drífa ykkur að sjá og heyra sýninguna til að upplifa þann galdur sem lætur manni líða í brjóstinu eins og maður sé lítið barn sem aldrei áður hefur í leikhús komið.“

Í fyrsta þætti óperunnar La bohème eftir Giacomo Puccini, sem gerist í París, erum við stödd uppi á hanabjálka í leiguíbúð fjögurra lista- og menntamanna, skáldsins Rodolfos, listmálarans Marcellos, heimspekingsins Collines og tónlistarmannsins Schaunards. Í sviðsetningu listhópsins Óðs á La bohème, sem var frumsýnd á Litla sviði Borgarleikhússins á degi heilags Nikulásar 6. desember kann Schaunard þessi vel að blása í básúnu.

 

Þegar óperan hefst er aðfangadagskvöld og skítkalt í risíbúðinni. Ekkert er til að setja á eldinn og ekki heldur nokkurn matarbita að hafa. Schaunard kemur með lítils háttar vistir en samt eru allir svangir og ofan á allt annað er húsaleigan löngu fallin í gjalddaga og ekki góðs að vænta af harðsvíruðum leigusala.

 

En bóhemarnir eru ekki á þeim buxunum að láta jólin fram hjá sér fara í sorg og sút svo þeir skella sér á veitingahús að fá sér almennilega jólamáltíð. Skáldið Rodolfo verður eftir – segist munu koma seinna. Og viti menn. Áður en varir bætist fimmti listamaðurinn í hópinn í þessari bóhemaóperu. Það er saumakona sem í frumtexta La bohème kynnir sig í frægri aríu, Mi chiamano Mimi, ég er kölluð Mimi.

 

Þegar Mimi skreiðist upp um gólfhlerann í risíbúðinni er hún móð og máttfarin eftir að hafa klifið alla stigana til Rodolfos í þeim erindum að biðja hann um að kveikja á kertinu sínu sem vindgustur slökkti logann á.

 

Mimi saumakona býr þarna í sama húsi og mig grunar að hún geri sér upp eldspýtnaleysið, hafi áttað sig á því að Rodolfo er einn í íbúðinni eftir að félagar hans hlupu niður stigana, og ákveðið að láta á það reyna hvort hún fengi ekki sína jólagjöf, ást Rodolfos sem hún er bálskotin í og hefur auðvitað oft séð í stiganum í þessu húsi.

 

Mimi fær það sem var efst á óskalista hennar og þau Rodolfo fara á veitingahúsið að borða jólamatinn með hinum listamönnunum.

 

Þetta kallar á senuskipti á sviðinu – og þvílíkir töfrar sem verða þegar hugkvæmnin og listfengið en ekki tæknibrellur og forrituð tól ráða ferðinni. Ég ætla ekki að útskýra töfrana nánar. Þið þurfið að drífa ykkur að sjá og heyra sýninguna til að upplifa þann galdur sem lætur manni líða í brjóstinu eins og maður sé lítið barn sem aldrei áður hefur í leikhús komið.

 

La bohème var fyrst sýnd í Teatro Regio í Tórínó árið 1896. Leikmyndina gerði rússneski málarinn og leikmyndahönnuðurinn Adolf Hohenstein. Myndirnar af leikmynd hans að La bohème, sem auðvitað má finna með því að gúggla á netinu, eru undurfagrar. Mér sýnist að Helga I. Stefánsdóttir, sem gerir leikmynd og búninga í sýningu Óðs á óperunni, hafi sótt innblástur í verk Hohensteins. Þetta segi ég ekki Helgu til lasts heldur til mikils lofs því að hún vinnur frábærlega úr sínum innblæstri og brúar vel það langa árabil sem liðið er frá frumsýningunni á La bohème í Tórínó til sýningar Óðs.

 

Búningar og hreyfingar söngvaranna í uppfærslu Óðs eru heildstætt listaverk, stundum svo fallegt að manni finnst maður vera að horfa á verk eftir afbragðs málara. Í sköpun þeirra mynda hafa leikstjórinn, leikmyndahöfundur og dansstjórinn unnið vel saman.

 

Margar laglínur úr aríum La bohème og tví- og kvartettsöngvum óperunnar láta kunnuglega í eyrum en bæði tónlistin og efni hennar færast svo miklu nær okkur þegar sungið er á íslensku. Sólveig Sigurðardóttir og Þórhallur Auður Helgason þýddu librettó óperunnar og sömdu leikgerð sýningarinnar.

 

Textarnir sem Sólveig og Þórhallur Auður leggja söngvurunum í munn eru skínandi vel samdir og áhorfendur skilja hvert orð sem sungið er. Sólveig og Þórhallur eru heldur ekki nýgræðingar á þessu sviði því að mér telst til að áður hafi þau þýtt, leikgert og staðfært fjórar óperur fyrir Óð.

 

Svo syngja þau líka og leika ljómandi vel bæði tvö, Sólveig og Þórhallur, sem í þessari sýningu fara með hlutverk Mimi og Rodolfos.

 

Hið sama á við um Áslák Ingvarsson í hlutverki málarans Marcellos og Gunnlaug Bjarnason sem syngur og leikur básúnublásarann Schaunard. Að ógleymdum Ragnari Pétri Jóhannessyni en hann fer með hlutverk heimspekingsins Collines sem kann ekki bara sinn Sókrates heldur spilar líka á trompet. Ragnar Pétur á stjörnunúmer á sviðinu þegar líður að lokum sýningarinnar.

 

Bryndís Guðjónsdóttir syngur og leikur söngkonuna Músettu sem á fjöldamarga aðdáendur. Í enskum efnisútdrætti óperunnar á vefsíðu alfræðiritsins Britanica er Músetta sögð vera a working girl, sem er viðkvæmt en ekki lögverndað starfsheiti. Hvað sem því líður er Músetta sennilega sá karakter þessarar óperu sem á sér flestar hliðar og þær allar söng og sýndi Bryndís afar vel.

 

Karl Friðrik Hjaltason er í hlutverki þjónsins Parpignols sem ber jólakræsingarnar á borð fyrir bóhemana. Ég ætla ekki að kjafta frá því hver borgar reikninginn á veitingahúsinu en þann greiðsluvanda leysir Músetta af stakri snilld.

 

Leigusalann harðsvíraða leikur Níels Thibaud Gierard. Leikgervi hans og búningur í hlutverkinu eru undurvel heppnuð og undirstrika fyndna túlkun Níelsar á þessum aumkunarverða karakter. Því miður er ég hræddur um að brellurnar sem leigusali listamannanna í óperunni er beittur virki ekki þegar fólk á í höggi við okurleigufursta samtímans á Íslandi. Níels leikur líka ríka elskhugann Alcindor. Auk þess er hann í hlutverki náunga sem vaknar upp eftir næturslark á bekk í útjaðri Parísar þar sem hann hefur blundað ásamt félaga sínum, sem Karl Friðrik Pétursson leikur. Þeir Karl Friðrik og Níels eru líka töframennirnir sem framkalla fegurð einfaldleikans í sviðsskiptingum.

 

La bohème er fyrsta óperusýning Óðs þar sem hljómsveit kemur við sögu. Í fyrri sýningum hópsins var píanóið látið nægja. En þetta er fámenn hljómsveit, þrír blásarar, þrír strengjaleikarar og einn píanisti. Hann heitir Sævar Helgi Jóhannsson og hann útsetti líka tónlistina ásamt þeim Tryggva Þór Péturssyni og Karli Friðriki Hjaltasyni. Sjálfsagt fer það í taugarnar á einhverjum að það sé búið að fitla svona mikið við hljómsveitarraddskrána hans Puccinis en í mínum eyrum hljómaði útsetningin eins og skemmtileg tjáning í tónum sem studdi vel við efnið sem blasti við augum og hljómaði af sviðinu. Og mér fannst mjög gaman að því hvernig hljóðfærin stundum líkt og spjölluðu við persónur óperunnar.

 

Sævar Helgi píanisti er líka tónlistarstjóri í sýningunni og hann spilaði mjög skemmtilega á píanóið alls konar tilbrigði við tónlistina í La bohėme meðan töfrar sviðskiptanna fóru fram í afskaplega öruggum takti.

 

Í sýningunni eru dansatriði sem eru óborganlega skemmtileg og þau og aðrar sviðshreyfingar æfði Bjartey Elín Hauksdóttir. Það var fín vinna og bar öll helstu einkenni Óðs, léttleika og sköpunargleði með dálítið alvarlegum undirtóni sem áhorfandinn skynjar allan tímann mitt í allri glaðværðinni.

 

La bohème er nefnilega langt frá því að vera hreinræktuð gamanópera þótt það sé mjög gaman að horfa og hlusta á sýningu Óðs á þessu alkunna verki. Sorgin í lok sýningarinnar varð jafn áhrifamikil og glensið sem á undan fór.

 

Tómas Helgi Baldursson leikstýrir La bohème og eins og í fyrri sýningum Óðs sýnir hann hugkvæmni í nýtingu rýmisins og næmni fyrir efni verksins. Í stöku atriðum undirstrikaði sviðsetning Tómasar Helga tengsl persónanna og innri átök þeirra með áhrifamiklum hætti. Hið sjónræna sagði að minnsta kosti jafnmikið og tónlistin og orðin.

 

Jóhann Friðrik Ágústsson hannaði lýsingu í sýningunni. Ég gat hvergi séð annað en að hún væri við hæfi og án allra stæla.

 

Litla sviðið í Borgarleikhúsinu er ekki óperuhús og hljómburður þar ekki sérlega vinsamlegur tónlist eins og Óður og samverkamenn flytja af mikilli natni. En þar er ekki við listamennina að sakast og engin ástæða til þess að láta þetta fara í taugarnar á sér. Miklu betra er að taka þeirri vel unnu list sem Óður býður upp á fagnandi og njóta hennar í botn.