Gamanóperan Ástardrykkurinn eftir Donizetti var frumsýnd í Mílanó árið 1832 en er ennþá frísk og fjörug þrátt fyrir háan aldur, í það minnsta í meðförum sviðslistahópsins Óðs í Þjóðleikhúskjallaranum. Þau laga hana að sýningarstaðnum, láta hana gerast á kaffihúsi þar sem ein persónan vinnur og aðrar persónur eiga leið um. Snilldarhugmynd. Sviðið er á dansgólfinu forna og áhorfendur sitja við borð á þrjá vegu en fyrir innan sviðið situr Sigurður Helgi Oddsson og leikur heila hljómsveit á píanó. Leikstjóri er Tómas Helgi Baldursson.
Á kaffihúsinu vinnur Nemorino (Þórhallur Auður Helgason), ungur maður og fríður en staurblankur (kjör fólks í þessum geira voru greinilega ekkert skárri þá). Hann er sárlasinn af ást og þrá til Adinu (Sólveig Sigurðardóttir), auðugrar stúlku sem er vön að vefja karlmönnum um fingur sér og finnst lítið til Nemorino koma. Þá kemur til sögunnar farandlyfsalinn Dulcamara (Ragnar Pétur Jóhannsson) sem á ráð við öllum kvillum, líka ófullnægðri ástarþrá. Hann selur Nemorino göróttan ástarelixír sem á að gera hann ómótstæðilegan öllu kvenfólki – þó ekki fyrr en daginn eftir – og þar með líka Adinu. Þennan þráð flækir svo ofurstinn Belcore (Jón Svavar Jósefsson) sem biður Adinu og þegar hann fær jáyrði hennar vill hann giftast henni undireins – áður en ástardrykkurinn er farinn að virka. Ef þið viljið komast að því hvernig sagan fer skuluð þið drífa ykkur í Þjóðleikhúskjallarann!
Óperan er sungin á íslensku og þýðingin er vel ort, fyndin og snjöll. Hana gerði upphaflega Guðmundur Sigurðsson, hið þekkta gamanvísna- og revíuskáld, en Sólveig Sigurðardóttir (barnabarn tvíburabróður Guðmundar) lagaði hana að þessari uppsetningu. Það munar auðvitað miklu, einkum þegar brögð eru í tafli, að vita nákvæmlega hvað hver er að segja og hver er að plata hvern! Þau voru líka öll skýrmælt og tóku vel utan um textann þó að þar verði ég einkum að hæla Ragnari Pétri sem söng auglýsingatexta Dulcamara á ævintýralegum hraða! Það var helst í þeim aríum sem þrír eða fjórir söngvarar syngja í senn, hver sína línu, sem textinn týndist, maður heyrði þá bara í þeim sem næstur manni stóð á sviðinu; en þá hefði vel mátt láta söngvarana hreyfa sig meira um sviðið því oft eru setningarnar endurteknar aftur og aftur.
Þetta unga fólk syngur svo vel að ekki þarf að kvíða óperuflutningi á Íslandi í framtíðinni. Þórhallur Auður er skínandi góður tenór eins og ekki kom síst fram í flutningi hans á fegurstu aríu óperunnar, „Una furtiva lagrima“. Og Sólveig hefur glæsilegt raddsvið sem sópran, spannaði ríflega tvær áttundir eins og að drekka vatn og var skýrmælt bæði efst og neðst! Ragnar Pétur og Jón Svavar syngja líka reglulega vel og öll fjögur eru fínir leikarar sem tjá allar þessar ruglingslegu tilfinningar eins og þau skilji þær djúpum skilningi.
Það verður enginn svikinn af ferð í Þjóðleikhúskjallarann og „ástardrykkurinn“ sem bruggaður var sérstaklega fyrir uppsetninguna gældi við bragðlaukana.