La bohème ★★★★ „Má ég leiða þig mín kæra …“

Magnús Lyngdal Magnússon

„Liðsmenn Óðs eru til fyrirmyndar. Sýningar Óðs hafa fest sig rækilega í sessi“

Fyrir sléttu ári skrifaði ég gagnrýni um uppfærslu sviðslistahópsins Óðs á óperu Rossinis, Rakaranum í Sevilla, og komst meðal annars þannig að orði: „Á vondri íslensku myndi ég orða það sem svo að sviðslistahópurinn Óður sé á „rönni“.“ Til þess að taka af öll tvímæli bregst hópnum heldur ekki bogalistin nú, það er að segja í uppfærslu á einni dáðustu (og vinsælustu) óperu tónlistarsögunnar, La bohème eftir Puccini, sem var frumsýnd laugardaginn 6. desember. Þetta er fimmta óperan sem Óður færir upp en áður höfðu Ástardrykkurinn (Donizetti), Don Pasquale (Donizetti), Póst-Jón (Adam) og Rakarinn í Sevilla (Rossini) verið færðar upp, fyrstu þrjár í Þjóðleikhúskjallaranum og síðastnefnda í Sjálfstæðissalnum við Austurvöll. La bohème er viðamesta verkefni hópsins til þessa en óperan er sýnd á Litla sviði Borgarleikhússins.

Þó svo að Cavalleria rusticana eftir Pietro Mascagni sé jafnan talin fyrsta verismo-ópera tónlistarsögunnar kom það í hlut Giacomos Puccinis (1858-1924) að fullkomna þennan raunsæisstíl sem einkenndi ítalskar óperur frá því seint á 19. öld og fram yfir aldamótin 1900. La bohème var frumsýnd í Tórínó árið 1896 og er byggð á smásögu franska skáldsins Henris Murgers, „Scènes de la vie de bohème“ (frá 1851). Reyndar keppti Puccini við tónskáldið Ruggero Leoncavallo um að koma smásögu Murgers í óperuform en Puccini varð fyrri til. Samnefnd ópera Leoncavallos komst á fjalirnar í Feneyjum ári síðar og þótt ótrúlegt megi virðast hlaut La bohème eftir Leoncavallo betri viðtökur á sínum tíma en er fyrir löngu fallin í gleymsku á meðan ópera Puccinis lifir í hjörtum áheyrenda.

 

Ópera hins smáa

Sjálfur lýsti Puccini La bohème sem óperu hins smáa, jafnvel þó svo að þar gæti áhrifa frá Wagner. Puccini notar til að mynda það sem stundum er nefnt minnisstef, það er að segja nokkur meginstef sem skjóta upp kollinum víða í óperunni. Hugmyndin er ekki ólík því sem Wagner gerði með leiðarstef en sá er munurinn að minnisstefin eru ekki þróuð áfram, heldur hljóma þau ávallt í upprunalegri gerð út í gegnum óperuna.

La bohème var fjórða ópera Puccinis. Fyrstu tvær, Le Villi og Edgar, hlutu ekki góðar viðtökur en öðru máli gegndi um þá þriðju, Manon Lescaut. Hún ber mikil verismo-einkenni en Puccini steig hins vegar skrefið til fulls í La bohème. Yrkisefni hennar gat heldur ekki verið raunsærra, raunir fátækrar saumastúlku og nokkurra listamanna í Latínuhverfi Parísar um 1830. Venju samkvæmt söng sviðlistahópurinn Óður óperuna á íslensku. Þýðingin (eða eiginlega aðlögun textans) var í höndum þeirra Sólveigar Sigurðardóttur og Þórhalls Auðs Helgasonar. Rétt eins og áður fannst mér þeim oftast takast vel upp. Þannig varð „Che gelida manina“ að „Svo kaldar þessar hendur“ og „Dammi il braccio, o mia piccina … Obbedisco, signor!“ að „Má ég leiða þig mín kæra … Hvort þú mátt, herra minn!“ svo dæmi séu tekin en víða var þó þýðingin býsna frjálsleg. Textaframburður var líka skýr og raddir bárust vel á Litla sviði Borgarleikhússins en ekki var eftirhljómurinn mikill.

 

Söngur almennt góður

Sönglega var uppfærslan nokkuð góð. Það voru þau Þórhallur Auður Helgason og Sólveig Sigurðardóttir sem sungu hlutverk elskhuganna (Rodolfo og Mimì) en mér fannst eftir sem áður bæði Bryndís Guðjónsdóttir (Musetta) og Ragnar Pétur Jóhannsson (Colline) stela senunni, sönglega séð. Bryndís fór þannig á kostum í valsinum í öðrum þætti og það gerði Ragnar Pétur líka þegar hann kvaddi frakkann sinn í fjórða þætti. Áslákur Ingvarsson (Marcello) og Gunnlaugur Bjarnason (Schaunard) stóðu líka fyrir sínu en Gunnlaugur átti stórkostlega innkomu, leikandi á básúnu. Loks vil ég hrósa Níelsi Thibaud Girerd sem lék bæði hlutverk leigusalans Benoits og ríka ástmannsins Alcindors af kostgæfni.

Leikmynd og búningar Helgu I. Stefánsdóttur voru einfaldir og það var í sjálfu sér leikstjórn Tómasar Helga Baldurssonar líka. Eins og í fyrri uppfærslum Óðs var salurinn nýttur vel og meðal annars sungið og leikið af svölunum.

Tónlistarstjórn var í höndum Sævars Helga Jóhannssonar en hann sá um útsetningu ásamt þeim Tryggva Þór Péturssyni og Karli Friðriki Hjaltasyni. Hljómsveitin samanstóð af píanói, fiðlu, sellói, kontrabassa, óbói, klarínetti og flautu. Auðvitað er hljómurinn ekki sambærilegur við fullskipaða hljómsveit í gryfju óperuhúsa en leikurinn var heldur ekki til þess gerður og það var ákveðinn sjarmi yfir útfærslunni í Borgarleikhúsinu. Sumt í útsetningunni var líka, eðlilega, einfaldað til muna eins og til að mynda hópatriðið í lok annars þáttar.

 

Liðsmenn Óðs eru til fyrirmyndar

Ég skemmti mér vel á uppfærslu Óðs á La bohème eftir Puccini. Sýningin var vel leikin og oftast ágætlega sungin. Auðvitað var hún ekki gallalaus en fæstar óperusýningar eru það. Það er líka eiignlega sama í hvers konar uppfærslu maður sér þessa óperu, lokaatriðið er alltaf jafn áhrifamikið og þar átti Þórhallur Auður stórleik þegar hann starði votum augum út í tómið sitjandi yfir Mimì látinni.

Ég hef sagt það áður að mér líkar það ákaflega vel þegar ungir söngvarar bíða ekki eftir að fá tækifæri upp í hendurnar, heldur skapa þau sjálf, og sýningar Óðs hafa fest sig rækilega í sessi.