„Bráðhnyttnir söngtextar og leikur að óperuforminu“

Trausti Ólafsson

„Óður er alveg sérstaklega skemmtilegur hópur söngvara og annarra listamanna, sem gleður áhorfendur innilega með sýningum sínum [...] Allt í kringum Rakarann í Sevilla í meðförum Óðs er fyrst og fremst mjög skemmtilegt – en líka faglegt. Það er langt síðan ég hef heyrt eins hjartanlegan fögnuð áhorfenda í íslensku leikhúsi og á sunnudagskvöldið var.“

Er ekki eitthvað skrítið við það að vera að sýna á Íslandi árið 2025 eldgamla óperu eftir ítalskan mann sem gerð er eftir frönsku leikriti frá átjándu öld og gerist á Spáni? Svarið við svona spurningu fæst náttúrulega ekki nema að fara á stúfana og sjá og heyra hvað er á seyði.

Það gerði ég á sunnudagskvöldið var, dreif mig í gamla Sjálfstæðishúsið við Austurvöll, sem einu sinni hét Sigrún, en hefur líka verið kallað Nasa og nú Sjálfstæðissalurinn, og þar sá ég sýningu á óperunni Rakarinn í Sevilla eftir Rossini – og sagt er að þetta sé einhver vinsælasta gamanópera allra tíma.

Íslenska óperan virðist vera dáin sem stofnun og lítið hefur orðið úr Þjóðaróperunni sem Lilja Alfreðsdóttir lofaði að yrði til. Það skemmtilega við þessar leiðinlegu aðstæður er að þá er eins og kvikni nýtt líf í íslenskum óperuheimi. Rakarinn í Sevilla var frumsýndur í Sjálfstæðissalnum fyrir áramótin og það styttist í frumsýningu Kammeróperunnar á Brúðkaupi Fígarós í Borgarleikhúsinu. Það er skondin tilviljun að báðar þessar óperur eru gerðar eftir leikritum eftir sama höfund. Og ekki bara það, heldur eru þessi leikrit Beaumarchais, Rakarinn í Sevilla og Brúðkaup Fígarós, fyrsta og annað leikritið í þríleik þar sem Fígaró er í fókus – en Almaviva greifi og Rosina, sem þarna eru líka í aðalhlutverkum, eru persónur í öllum þremur leikritunum.

Hugmyndina að þessum karakterum fékk Beaumarchais víst þegar hann var að frílista sig á Spáni, hver svo sem annars erindi hans voru þar, en eitt af því sem þetta leikritaskáld hafði á ferilskrá sinni voru njósnir. Wikipedia segir mér að þessi leikrit um Fígaró hafi að einhverju leyti verið sjálfsævisöguleg, en minnist í því sambandi hvorki á njósnir né vopnasölu, sem var víst líka aukabúgrein hjá Beaumarchais.

Það er Óður – Listhópur Reykjavíkur árið 2024 – sem setur upp Rakarann í Sevilla. Óður hefur áður sviðsett þrjár óperusýningar og hópurinn hefur bæði unnið til Grímuverðlauna og verið tilnefndur sam flytjandi ársins á íslensku tónlistarverðlaununum. Þetta er engin tilviljun – því að Óður er alveg sérstaklega skemmtilegur hópur söngvara og annarra listamanna, sem gleður áhorfendur innilega með sýningum sínum. Af þeim hef ég áður reyndar bara séð Póst-Jón, sem var sunginn og leikinn í Þjóðleikhúskjallaranum í fyrravetur. En sú skemmtun fylgdi manni í marga daga á eftir.

Það er mikið til sama fólkið og í Póst-Jóni sem maður fær að sjá og heyra í Rakaranum í Sevilla í Sjálfstæðissalnum. Áslákur Ingvarsson er Fígaró og syngur svo fjarska vel fyrir nú utan hvað það er skemmtilegt að horfa á hann leika. Þórhallur Auður Helgason er í hlutverki Almaviva greifa og Sólveig Sigurðardóttir syngur og leikur Rosinu. Þau tvö eru líka skrifuð fyrir þýðingum textans og handriti sýningarinnar – þar sem ýmislegt er með nokkuð öðrum hætti en í óperutextanum sem hann Rossini studdist við þegar hann samdi músíkina.

Ég er reyndar enginn Rossini- eða rakarafræðingur en það leynir sér ekki að þýðendur og listrænir stjórnendur Rakarans hafa skemmt sér vel við að semja bráðhnyttna söngtexta við tónlist Rossini og leika sér að óperuforminu í húsnæði sem minnir meira á næturklúbb en óperuhöll.
Þórhallur Auður og Sólveig þýddu líka og staðfærðu Póst-Jón í fyrra og þeim er greinilega fleira til lista lagt en að syngja svona fallega og taka sig vel út á sviðinu. Ragnar Pétur Jóhannsson er í hlutverki leðurklædda illmennisins Bartolo, sem heldur Rosinu fanginni og Almaviva þarf að takast á við. Ragnar Pétur fer létt með túlka Bartolo, þó að það sé enginn barnaleikur að leika fyndinn mannfjanda, og það spillir ekki að Ragnar Pétur syngur svona líka ljómandi vel.

Þá eru held ég upp taldir þeir söngvarar sem ég kannast við úr óperunni skemmtilegu um hann Póst-Jón og það fólk allt saman. Liðsstyrkurinn sem Óður fær í Rakaranum er ekki af verri endanum. Philip Barkhudarov er í hlutverki Vasilíevskíj – þess rússneska skúrks og söngkennara, og hann er líka einn af fjórmenningunum í rakarakvartettinum – en hinir þrír heita Karl Friðrik Hjaltason, Gunnar Thor Örnólfsson og Þorkell Helgi Sigfússon.

Mér fannst undurgaman að heyra og sjá rakarakvartettinn bregða sér í hlutverk óperuhljómsveitar og afhelga óperuformið með þeim hætti að áhorfendur veltust um af hlátri. Mér sýnist á leikskránni að þau Karl Friðrik og Sólveig hafi útsett þessa afhelgun á hljómsveitarútsetningu tónlistarinnar og gert hana að góðu gamni en hreint engu guðlasti.

Sviðsetning og leikstjórn Tómasar Helga Baldurssonar á Rakaranum minnir um margt á Póst-Jón í Þjóðleikhúskjallaranum. Allt rýmið er nýtt á margvíslegan og hugmyndaríkan hátt sem verður til þess að sýningin öll og söngvararnir eru mjög nærri áhorfendum. Sjálfstæðissalurinn hentar reyndar enn betur en Þjóðleikhúskjallarinn fyrir sviðsetningu af þessu tagi og ég er líka ekki frá því að hljómburður sé betri þar en í kjallara Þjóðleikhússins. Að minnsta kosti fannst mér raddir söngvaranna blandast þarna enn betur en í Póst-Jóni og tónlistarflutningurinn allur skila sér afar vel.

Tónlistarstjóri sýningarinnar heitir Sævar Helgi Jóhannsson og hann lék líka mest á píanóið, en Almaviva greifi reyndist líka liðtækur á slaghörpuna og það var gaman að heyra og sjá Fígaró grípa aðeins í gítarinn.

Óður sér bæði um leikmynd og búninga í Rakaranum. Búningar eru listavel valdir og sviðsmyndir sáraeinfaldar en gegndu sínu hlutverki vel í sviðsetningu og leikstjórn Tómasar Helga. Hann hefur reyndar notið aðstoðar Bjarteyjar Elínar Hauksdóttur sem æfði og samdi sviðshreyfingar. Það hefur ekki verið leiðinlegt á æfingum þegar hún var að peppa upp rakarakvartettinn og láta hann samhæfa sínar bráðskemmtilegu kúnstir. Jóhann Friðrik Ágústsson annast lýsingu Rakarans. Hann hefur ekki úr óteljandi kösturum að spila en nýtir allt sem hann hefur í höndunum vel.

Niðurstaða mín eftir að hafa séð sýninguna á Rakaranum og velt henni lítils háttar fyrir mér er sú, að það er hreint ekkert skrítið við það að vera að sýna gamla og margsungna óperu byggða á eldgömlu leikriti hér á Íslandi árið 2025. Þvert á móti er það bráðnauðsynlegt og blæs nýju lífi í íslenska óperuheiminn og setur léttan svip á íslenskt leikhús.

Allt í kringum Rakarann í Sevilla í meðförum Óðs er fyrst og fremst mjög skemmtilegt – en líka faglegt. Það er langt síðan ég hef heyrt eins hjartanlegan fögnuð áhorfenda í íslensku leikhúsi og á sunnudagskvöldið var.
Það eru nokkrar sýningar eftir svo ef þið viljið skemmta ykkur við óperusöng af umtalsverðum gæðum, þá skuluð þið drífa ykkur í Sjálfstæðissalinn við Austurvöll. Svo er víst líka stöðugt verið að fjölga áætluðum sýningum á Brúðkaupi Fígarós sem Kammeróperan frumsýnir í Borgarleikhúsinu í kringum mánaðamótin.

Óperan er sem sagt bráðlifandi á Íslandi og á sér marga aðdáendur. Ekkert skrítið við það og við eigum líka fjöldann allan af frábærum söngvurum sem þyrstir í að láta til sín taka á óperusviðinu. Þjóðaróperan er þess vegna þegar orðin til, á bæði söngvara og áhorfendur, en hana skortir ennþá heimilisf festi, búseturétt og fjármagn. Hver veita nema arkitektinn Logi Einarsson í menningarráðuneytinu reddi því og reynist vera reddari á heimsmælikvarða og í þeim efnum á pari við Fígaró rakara í Sevilla.