Póst-Jón ★★★★

Magnús Lyngdal Magnússon

„Sviðslista­hóp­ur­inn Óður sýn­ir með upp­færslu sinni í Þjóðleik­hús­kjall­ar­an­um að ekki þarf alltaf að kosta miklu til. Um var að ræða hina bestu kvöld­skemmt­un [...] Óður ger­ir vel með að færa óper­una nær áhorf­end­um“

Þjóðleik­hús­kjall­ar­inn, Póst-Jón ★★★★

Sviðlista­hóp­ur­inn Óður hef­ur látið að sér kveða á und­an­förn­um árum, það er að segja allt frá því að hóp­ur­inn setti upp Ástar­drykk­inn eft­ir Don­izetti (2021); í fyrra setti hóp­ur­inn svo upp Don Pasquale eft­ir sama tón­skáld. Nú var röðin kom­in að gamanóper­unni Le post­illon de Lonju­meau eft­ir Adolp­he Adam við texta þeirra Adolp­hes de Leu­vens og Léons Lévys Brunswicks. Sýn­ing­in var sung­in á ís­lensku og fékk verkið heitið Póst-Jón í ís­lenskri þýðingu.

Að eig­in sögn er mark­mið Óðs að „út­rýma þeim háa þrösk­uldi sem al­menn­ir áhorf­end­ur upp­lifa við að horfa á óper­ur.“ Hóp­ur­inn trú­ir þannig á „ná­lægð við áhorf­end­ur og ein­læga túlk­un á tungu­máli sem áhorf­end­ur skilja“ og „neit­ar að geyma óper­ur í gler­köss­um.“ Það voru sann­ar­lega eng­ir gler­kass­ar á upp­færsl­unni á Póst-Jóni sem ég sá í Þjóðleik­hús­kjall­ar­an­um á dög­un­um. Þessi vett­vang­ur er kannski ekki kjör­inn fyr­ir óperu­flutn­ing en hóp­ur­inn gerði mikið úr litlu og notaði sal­inn vel. Radd­ir bár­ust, eðli máls­ins sam­kvæmt, vel og söngv­ar­arn­ir þurftu lítið að beita sér til þess að ná til áheyr­enda. Á stöku stað var hljóm­ur­inn ívið of sterk­ur en ann­ars var radd­beit­ing til fyr­ir­mynd­ar og framb­urður skýr; söngv­ar­ar komu text­an­um vel frá sér. Þýðing­in féll oft­ast ágæt­lega að tón­list­inni, en hún var að hluta til staðfærð (það var til að mynda skemmti­legt þegar fána­skipti voru á pí­anó­inu). Inn á milli voru þó steypu­mót á þýðing­unni („Héðan er hann al­far­inn / hætt­ur að bera út póst­inn“) en ann­ars staðar var hún býsna góð („List­ar­inn­ar vegna / læt ég vera að farga mér“).

Póst-Jón er vissu­lega gamanópera en verkið er marglaga og það dreg­ur óperu­formið (og raun­ar óperu­heim­inn) sund­ur og sam­an í háði, auk þess sem það hef­ur siðferðis­leg­an boðskap. Verkið er vel samið og tón­skáldið vitn­ar hér og þar í verk annarra tón­skálda af miklu list­fengi (söng­lagið „Ó, helga nótt“ gerði Adam fræg­an árið 1847, en und­an­fari þess skýt­ur upp koll­in­um í Póst-Jóni).

Radd­lega séð var verkið ágæt­lega flutt. Söngv­ar­arn­ir komu kannski ívið „kald­ir“ á svið en þeim óx ásmeg­in. Ég get í sjálfu sér ekki gert upp á milli þeirra og söngv­ar­arn­ir fjór­ir, Þór­hall­ur Auður Helga­son (Jón), Sól­veig Sig­urðardótt­ir (Ingi­björg), Áslák­ur Ingvars­son (greif­inn) og Ragn­ar Pét­ur Jó­hanns­son (Bi­sjú) stóðu sig öll vel; flest þeirra sýndu líka mikla radd­lega breidd, ekki hvað síst Sól­veig. Ég hló mest að Bi­sjú (Ragn­ar Pét­ur) en hlut­verk hans bauð líka upp á það.

Leik­stjórn var í hönd­um Tóm­as­ar Helga Bald­urs­son­ar og um sviðshreyf­ing­ar sá Bjart­ey Elín Hauks­dótt­ir. Þá hannaði Jó­hann Friðrik Ágústs­son lýs­ingu og hér gild­ir það sem ég nefni að ofan: Það var gert mikið úr litlu. Tón­list­ar­stjórn var í hönd­um Sig­urðar Helga, sem lék á (upp­rétt) pí­anó. Leik­ur hans var oft­ast býsna góður.

Nú þegar Íslensku óper­una hef­ur þrotið ör­endið er þing í að fá óperu­flutn­ing hér á landi. Sviðslista­hóp­ur­inn Óður sýn­ir með upp­færslu sinni í Þjóðleik­hús­kjall­ar­an­um að ekki þarf alltaf að kosta miklu til. Um var að ræða hina bestu kvöld­skemmt­un. Auðvitað er ekki hægt að leggja að jöfnu sýn­ing­ar í Þjóðleik­hús­kjall­ar­an­um og sýn­ing­ar á stóru sviði með hljóm­sveit í gryfj­unni en sviðslista­hóp­ur­inn Óður ger­ir vel með að færa óper­una nær áhorf­end­um.