Það er ekki það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar maður segir frá því að maður hafi séð bráðskemmtilega óperusýningu á laugardagskvöldið að sú sýning hafi verið í Þjóðleikhúskjallaranum. Kjallarinn sá gegndi reyndar um árabil mikilvægu hlutverki sem lítið svið í Þjóðleikhúsinu og þar voru fjöldamargar mjög áhugaverðar sýningar, oftast fámennar en nutu sín afar vel í þessu litla rými þar sem nándin milli áhorfenda og leikara er mikil. En ópera í Þjóðleikhúskjallaranum. Varla, enda eru óperur oftast nær verk sem þurfa stór og mikil svið til þess að þær njóti sín. En söngvarahópur og listamenn þeim áhangandi sem valið hafa sér nafnið Óður hafa nú þegar sýnt að því er mér telst til þrjár óperusýningar þarna í kjallara Þjóðleikhússins. Þessum sýningum hefur verið gerður svo góður rómur að Óður var valinn sviðslistahópur Reykjavíkur nú í ár og er það vel.
Óður hefur mótað sér þá stefnu að taka sem flestar óperur upp úr glerkössunum þar sem þær liggja fáum til gagns eða gleði og syngja þær og leika fyrir áhorfendur. Eina slíka frumsýndi Óður á laugardagskvöldið. Sú heitir Le postillon de Lonjumeau, var frumsýnd í París árið 1836 og naut þá að því er sagt er töluverðra vinsælda. Óperan Le postillon de Lonjumeau, sem er eftir Adolphe Adam, er hins vegar ekki sérstaklega þekkt verk og ég viðurkenni að ég kannaðist fyrirfram bara ekki neitt við þá músík sem Óður söng fyrir mig á frumsýningunni í Þjóðleikhúskjallaranum á laugardagskvöldið. Að undanskildu einu lagi, eða kannski aríu, sem lét mjög kunnuglega í eyrum, en aðeins meira um það síðar.
Óður hefur staðfært efni óperunnar og lætur verkið gerast í íslensku og dönsku umhverfi, einhvern tímann í fortíðinni, líkast til á nítjándu öld. Ég þekki ekki upprunalegan texta óperunnar en giska á að það sem þar er franski smábærinn Lonjumeau verði Ísland í Póst-Jóni, eins og óperan heitir í meðförum Óðs, og Kaupmannahöfn komi í stað Parísar. Það eru söngvararnir í hlutverkum Jóns og Ingibjargar í sýningunni, þau Þórhallur Auður Helgason og Sólveig Sigurðardóttir, sem þýddu franska librettoið og gerðu handrit sýningarinnar. Þar kemur reyndar Ragnar Pétur Jóhannsson einnig við sögu því að hann þýddi aríu Bísjú, sem hann leikur og syngur sjálfur. Er skemmst frá því að segja að textarnir eru gríðarlega skemmtilegir og framburður allra söngvaranna með þeim ágætum að ekki eitt einasta orð í sýningunni fór framhjá eyrum mínum.
Fjórði söngvarinn í sýningunni er Áslákur Ingvarsson, sem leikur og syngur Trampe greifa, en sá kauði kemur til Íslands til þess að leita að afbragðs söngvara fyrir danska kónginn og hans óperuhús. Trampe hefur ekki mikla trú á að þessi ferð hans skili nokkrum árangri enda hefur hann lítið álit á íslenskri þjóð og ísköldu skerinu sem hún býr á. Einræða Trampe um Ísaland og ókosti þess er svo ótrúlega fyndin og skemmtilega saman sett að hún gleður bæði hjarta og heila – og Áslákur flutti hana undur vel. En fátt í þessari ræðu held ég að sé sótt beint í franska handritið þótt fyrirmynd hennar sé líkast til ættuð þaðan. Trampe greifi hefur heppnina með sér í söngvaraleitinni. Hann fær að heyra póstmanninn Jón hefja upp sína tignarlegu tenórrödd og hefur sjaldan eða aldrei hitt fyrir annað eins hæfileikabúnt. Jón veit náttúrlega ekki neitt um söng, ekki einu sinni hvað háa-séið er, en hann er náttúrutalent eins og svo vinsælt er að hampa hér á Íslandi. Trampe greifi sér fyrir sér hversu mjög það gæti orðið honum sjálfum til framdráttar ef hann færði kónginum svona söngdýrgrip eins og Jón er. Og hann linnir ekki látum fyrr en kann kemur honum í skip með sér og fer með hann til Kaupmannahafnar. Til þess er Jón mjög tregur í fyrstu, enda er maðurinn svo nýgiftur að hjónabandið hefur ekki einu sinn verið innsiglað í hjónasænginni. Samt skilur hann sína heittelskuðu Ingibjörgu eftir á köldum klakanum en heldur suður í álfu til að sigra heiminn með rödd sinni.
Svo líður tíminn. Póst-Jón fær nafnið Fuglesang í Kaupmannahöfn og þar syngur hann og syngur, en Ingibjörg bíður og bíður heimkomu hans árum saman. Loks gefst hún upp á þessari endalausu bið og skellir sér til Kaupmannahafnar og þau hjónin hittast þar á ný. Hvað gerist við þá endurfundi hef ég ekki hugsað mér að upplýsa hér. Hinu skal sagt frá að Trampe verður að ósk sinni og hann er gerður að óperustjóra kóngsins. Ekki vill betur til en svo að þeir Trampe og Jón fá augastað á sama kvenmanninum og þá verða góð ráð dýr. Í þeirri úlfakreppu fer Áslákur Ingvarsson í hlutverki óperustjórans og greifans Trampe að syngja afskaplega kunnuglegt lag. Það byrjaði að vísu í moll-tóntegund svo ég var hreint ekki viss hvort ég heyrði alveg rétt, en þegar tóntegundinni var breytt í dúr fór ekki á milli mála hvaða melódíu Áslákur var að syngja. Hana þekkja velflestir en textinn var dálítið öðru vísi en við eigum að venjast. Þetta var svo ámátlega fyndið og skrítið að áhorfendur í salnum fengu með engu móti haldið aftur af hlátri sínum.
Tónlistarstjóri óperunnar Póst-Jón heitir Sigurður Helgi og hann lék á píanó með söng listamannanna. Tómas Helgi Baldursson leikstýrir, Jóhann Friðrik Ágústsson hannar lýsingu og Bjartey Elín Hauksdóttir æfði sviðshreyfingar söngvaranna. Ekki er neitt upp á vinnu þessa fólks að klaga. Þetta var bara sallafínt og skemmtilegt og Þjóðleikhúskjallarinn, sem minnir svolítið á miðevrópska klúbba millistríðsáranna og er þess vegna kjörinn staður fyrir kabaretta og gamanóperu eins og Póst-Jón, virkaði mjög vel sem líklega minnsta óperuhús í Evrópu. Það var engin leikmynd og nánast ekkert props nema tveir borðfánar, sá íslenski og sá danski, sem stóðu á píanóinu, sá íslenski fyrir hlé og sá danski eftir hléið. Ekki þarf nú meira til þess að segja áhorfendum hvar persónurnar á sviðinu eru staddar.
Ég get ekki látið hjá líða að geta þess að mér fannst leikstjórinn hafa unnið afar vel með rýmið í Þjóðleikhúskjallaranum, en leikurinn og söngurinn fóru þarna um allt og glöddu bæði eyru og augu. Mér fannst samt að staðsetja hefði mátt píanóið öðru vísi og það hefði verið til bóta fyrir tónlistarstjórann að sjá söngvarana, svona eins og hljómsveitarstjórinn gerir í stóru óperuhúsunum. Það er ekki vandalaust að lýsa sýningu sem dreifist svona víða í rýminu en sá hluti verksins var vel af hendi leystur, fannst mér. Ég fann hvergi upplýsingar um hver valdi búninga í sýninguna en þeir voru skemmtilegir og sviðshreyfingarnar sem Bjartey Elín vann með söngvurunum undirstrikuðu léttleikann í sýningunni og voru fyllilega í samræmi við allt hennar innihald og umgerð.
Söngvararnir sungu allir mjög vel að því er ég best gat heyrt og skynjað og það er undursamlegt að fá að vera svona nærri söngvurum sem syngja ekki bara af hjartans lyst heldur líka af miklu listfengi. Það er bæði hressandi skemmtun og heilandi andrúmsloft sem áhorfendur geta sótt á þessa óperusýningu Óðs, listahóps sem er vonandi og að því er mér sýnist kominn til að vera.